Áskrifendur: 642

Gleymirðu...?

Gleymirðu að taka pilluna? Lyfin? Að vökva blómin? Pilluáminningin er tilraun til að hagnýta Internetið og SMS sendingar til að minna á reglulega, hversdagslega hluti sem annars gætu gleymst.

Megináherslan hefur verið á getnaðarvarnir kvenna; pilluna og hringinn, en hægt er að nýta áminninguna til að minna á nánast hvað sem er annað líka. Þjónustan er opin öllum og ókeypis.

Sagan

Pilluáminningin var sett á vefinn þann 24. október, 2001. Þá var hún takmörkuð við GSM síma þeirra sem voru í viðskiptum við Tal, en 1. nóvember voru áminningar til viðskiptavina Landssímans komnar í gagnið líka.

Þjónustan vakti fljótt athygli ýmissa fjölmiðla og áskrifendur urðu nokkur hundruð á fyrstu mánuðum þjónustunnar. Í júlí 2003 náðust svo formlegir samningar við Og Vodafone (nú Vodafone) sem tryggðu rekstrargrundvöll þjónustunnar og nokkru síðar náðist svipað samkomulag við Símann.

Þúsundasti áskrifandinn skráði sig sumarið 2004, en áskrifendum er enn að fjölga jafnt og þétt.

Smáatriði í sögu Pilluáminningarinnar má rekja á fréttasíðu þjónustunnar og í vefdagbók undirritaðs.

Tæknin

Pilluáminningin keyrir á RedHat Linux vél, vefþjónninn er Apache, en kóði áminningarinnar sjálfrar er skrifaður í Perl.

Áminningar eru sendar með því að tengjast SMS-gáttum símfélaganna yfir Internetið, en bæði Vodafone og Síminn hafa verið svo væn að styrkja þjónustuna með ókeypis SMS sendingum.

Gröf yfir notkun eru teiknuð með hjálp Google Charts.

Umsjón

Pilluáminningin er verk Bjarna Rúnars Einarssonar og er alfarið í hans umsjá og á hans ábyrgð.

Hægt er að hafa samband við umsjónarmann hér.

Pilluáminningin safnar engum persónuupplýsingum öðrum en þeim sem nauðsynlegar eru til að senda áminningarnar sem beðið er um. Símanúmer þeirra sem eru eða hafa verið í áskrift verða aldrei látin þriðja aðila í té, nema mögulega gegn dómsúrskurði.


Tenglar:




# (C) Copyright 2006-2019, Bjarni Rúnar Einarsson